Hetjan Okkar

Hetjan Okkar

Hér sit ég á skrifstofunni minni í Ármúla 40 og er að skrifa um einn erfiðasta tíma lífs míns. Það gerist í kafla 53, í bókinni um líf mitt. Í apríl 2011 fékk ég einhverjar erfiðustu fréttir lífs míns, að „Hetjan okkar“ hún litla systir mín, hefði látist um nóttina.
Það var eins og einhver ræki hníf mér í hjartastað þegar presturinn sem tók á móti mér í dyragættinni heima hjá mömmu sagði mér að hún hefði látist vegna eitraðs „mdma“ sem var í umferð á þessum tíma. Ég öskraði af sársauka á meðan ég barði í vegginn og grét og öskraði bæði í senn. Ég man hvað ég upplifði að þetta væri ósanngjarnt, hún af öllum okkar systkinum, litla hetjan sem var sú eina sem gat mögulega átt góða framtíð fyrir sér. 

Ég vissi það ekki þá, en þarna fékk ég risastórt verkefni sem reyndist prófsteinn á edrúmennsku mína og trúargöngu. 

Ég hringdi í Reynir bróður til að gera mitt besta að tilkynna honum fregnirnar. Hann var staddur í Víkurskála að fá sér að borða. Hann hafði verið að lesa frétt á Vísi, um að fjórir ungir menn sætu í haldi lögreglu vegna andláts rúmlega tvítugrar stúlku. 

Ég kom varla upp orði, í hvert skipti sem ég reyndi að segja honum að Harpa væri látin, þá brást röddin mér. Ég bara grét. Reynir, spurði mig, Baldur er þetta Harpa? Er það hún sem fréttin er um? Var það hún sem dó í Árbænum?
Við grétum saman í símann, þar til hann loksins stundi, ég kem í bæinn. 

Svo lítið vissum við þá um áhrif andláts systur okkar á fjölskylduna okkar, við vorum algjörlega í molum. 

Ég heyrði fljótlega af því hvað hafði gerst og það var þá sem átökin hófust innra með mér, á milli gamla og nýja mannsins. Gömlu vinirnir úr undirheimunum komu heim og sögðust skyldu ganga í málið og hefna dauða litlu systur minnar. Ég sat þarna brotinn og algjörlega bugaður af sorg fyrir framan þá og þann valmöguleika að geta hefnt hennar án þess að þurfa að koma nálægt því sjálfur.


Ég hafði predikað um fyrirgefningu, elsku og endurreisn síðustu þrjú árin. Ég hafði helgað líf mitt baráttunni við eiturlyfjadjöfulinn eins og ég kallaði það og hjálpað þessum brotnu að rísa upp aftur.


En þarna stóð dauðinn fyrir framan mig, glottandi og hann hafði sigrað þessa lotu. Ég var örvinglaður af sársauka þegar ég sat fyrir framan þá, kinkaði kolli og gaf þannig samþykki mitt um að þeir gengju í málið. 

 „Baldur kinkaðu bara kolli og ég við sjáum um þetta fyrir þig!“ 

Daginn eftir þessa örlagaríku heimsókn, fór ég út að skokka sem oft áður, en það hafði ég oft gert með litlu systur minni. 

Mér leið eins og hún væri við hlið mér, þótt ég sæi hana ekki. Mér fannst ég svo heyra röddina hennar innra með mér segja: Baldur, hvernig viltu minnast mín?.


Ég brotnaði algjörlega niður, tárin rjátluðu niður kinnar mínar og ég fór í vasann á buxunum og skjálfandi, fálmaði ég eftir símanum. Ég hringdi í strákana og sagði, strákar, ekki, ekki gera neitt, ekki snerta þá, látið þá í friði. 

Hvað ef ég hefði látið þá um þetta?  Hvað ef ég hefði farið niður gamla veginn? Sæti ég þá hér í dag og væri að skrifa þetta niður? Sennilegast ekki.. Það er nefnilega þetta með valið okkar og ákvarðanirnar sem við tökum sem hefur svo mikið að segja um líf okkar og hvaða stefnu við tökum. 

Við tók mjög erfiður kafli þar sem stórt skarð var hoggið í litlu fjölskylduna, svo stórt að það átti eftir að hafa hræðilegar afleiðingar á okkur.


Ég er svo þakklátur Guði fyrir að grípa svona inn í á þessum tíma, ég trúi því að hann hafi verið þarna að verki og talað til mín eins og ég myndi skilja það. Að hann hafi gefið mér tækifæri til að velja rétt, eftir að hafa tekið kolranga ákvörðun.
Ákvörðun sem hefði án efa leitt mig aftur niður glötunarstíginn sem gamli maðurinn hafði fetað svo oft áður. 

Ég hafði þurft að berjast margar erfiðar baráttur til að komast þangað sem ég var kominn á þessum tíma og það hefði allt horfið hefði ég látið verða af þessu. Ég vissi líka að alltaf þegar ég hefði hugsað til litlu systur minnar þá hefði ég munað hvernig ég brást við og það hefði litað minningu mínar um hana. 

Stefnan sem ég hefði tekið hefði verið í átt til glötunnar og ég hefði ekki setið hér við skrifborð mitt, í fyrirtækinu mínu þar sem ég er í dag, framkvæmdarstjóri og stýri þessu skipi í átt til heilbrigðist, heilbrigðar fjölskyldur er mitt og okkar takmark. Ég horfi út um gluggan og get horft yfir til Ármúla 23, þar sem ég áður rak vændishús og stóð í heilmiklu undirheimabraski. 

Í dag stunda ég annarskonar viðskipti, viðskipti sem skipta máli, að hjálpa fólki sem á erfitt, hvort sem það er með sjálft sig, í parsambandinu eða innan fjölskyldunnar. 

Í dag vinn ég að því að hjálpa fjölskyldum að feta í átt til heilbrigðist, í Lausninni, fjölskyldu- og áfallamiðstöð. Þegar einhver segir þér að þetta sé ömögulegt eða þú getir ekki eitthvað þá langar mig svo að þú skiljir að ekkert er ómögulegt með hjálp Guðs og góðra manna. Það er mín von að sagan mín eigi eftir að gefa fleirum eins og mér tækifæri á endurreisn. Að samfélagið okkar vinni að því að endurreisa fólk og kalla fram það besta í þeim, svo við getum byggt upp heilbrigðar fjölskyldur sem búa til heilbrigt samfélag. 

No Comments

Post A Comment